Content

 

Húsráð: Úr ýmsum áttum

Merki Húsráðs

Kertavax í dúkum

Fátt er hvimleiðara en þegar kertavax lekur í dúka. Ljótur bletturinn getur valdið taugastyrkustu manneskjum kvíða. Við byrjum á að ná stjórn á okkur áður en við kroppum það af vaxinu sem hægt er að á ná af. Síðan er tekið dagblað, lagt yfir blettinn og straujað vel yfir með heitu straujárni. Dagblaðið dregur í sig vaxið og eftir situr hreinn og fagur dúkur. Ef efnið er of viðkvæmt til að hægt sé að kroppa í vaxið má nota hárþurrku til að mýkja vaxið.

Fastir fitublettir í fötum

Óhöpp geta alltaf orðið og þannig geta mestu snyrtipinnar orðið fyrir því óláni að missa eitthvað niður á sig, kannski smá majónes úr brauðtertunni eða hvítlauksolíu af flatbökunni. Slíkum blettum getur verið erfitt að ná úr með hefðbundnum ráðum. Eitt er þó nær óbrigðult en það er að setja venjulegan uppþvottalög á blettinn og leyfa að standa í smá stund. Þvo svo eins og venjulega. Þetta ráð dugir jafnvel á bletti sem hafa verið fastir lengi í flíkinni.

Gull látið glansa

Margir eiga skartgripi úr gulli sem farnir eru að láta á sjá. Gott ráð er að bera vel hlutinn með tannkremi og leyfa því að standa lengi á. Síðan er skartgripurinn þveginn vel upp úr volgu vatni og eins og fyrir töfra verður skartgripurinn, sem áður var svo leiðinlegur, orðinn eins og ný.

Silfur silfrar án erfiðis

Það getur verið hugarró fyrir suma, og æfing í núvitund, að pússa silfur. Aðrir vita fátt leiðinlegra eða hafa ekki tíma til að pússa allt ættarsilfrið. Þeir geta prófað að setja álpappír í botninn á potti, fylla hann til hálfs af köldu vatni og setja slatta af matarsóda út í. Silfrið er svo sett í blönduna, suða látin koma upp. Fyrr en varir er silfrið aftur silfrað en álpappírinn svartur og ljótur.

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja