Fréttir

Húsráð: Þrif á baðherbergi

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. mars 2018

Það er varla til sá staður á heimilinu sem mikilvægara er að þrífa reglulega en baðherbergið. Þar eiga gerlar og sýklar góðan aðgang og því er alls ekki nóg að þrífa af og til. Ef ekki er nógu vel þrifið getur líka baðherbergið farið að lykta og ef ólyktin nær að halda velli í einhvern tíma getur verið erfitt að losna við hana. Okkur hjá Hreint finnst gaman að þrífa baðherbergi og deilum hér nokkrum góðum ráðum um hvernig best er að þrífa þar.

Ef köldu vatni er sprautað yfir baðkarið, sturtuna og sturtuklefann að innanverðu eftir notkun minnkar uppsöfnun kísils á þessum stöðum. Það er kísillinn sem myndar leiðinlega skán á gler og sturtur.

Eins og við höfum oft bent á er ekki endilega best að nota dýr hreinsiefni til að þrífa. Við þreytumst ekki á að benda á kosti borðediks og sítrónu enda er um umhverfisvæn og ódýr hreinsiefni að ræða sem oft skila líka betri árangri.
Borðedikið má til dæmis nota til þess að þrífa salernisskálina. Best er að hella því beint í skálina og láta standa lengi, helst yfir nótt. Þrífa svo vel með burstanum og skola niður. Ef ólykt er í baðherberginu er gott ráð að láta skál af ediki standa í gluggakistu eða á ofni. Þetta ætti að eyða jafnvel verstu ólykt og ef kattakassi er staðsettur á baðherbergi ætti þetta að vera staðalbúnaður.

Borðedikið er líka undraefni á flísar í sturtu. Best er að blanda tveimur hlutum af uppþvottalegi á móti einum hluta af ediki í úðabrúsa. Byrjað er á því að bleyta flísarnar vel með sturtuhausnum og úða svo blöndunni ríkulega yfir flísarnar. Þetta er svo látið standa í 30 mínútur áður en bursti er notaður til að ná öllum óhreinindum af. Að lokum er öllu saman skolað af og þerrað.
Stundum vilja vaskar verða leiðinlegir, kísill vill safnast upp og leifar af sápu og tannkremi gera þá matta. Við mælum með að skera sítrónu í tvennt og nudda vaskinn að innan með sítrónunni, láta safann standa í svolitla stund í vaskinum og endurtaka svo verkið. Að lokinni seinni umferð er vaskurinn skolaður. Náttúrulegt bleikiefnið í sítrónunni ætti að skila vaskinum hvítari og fallegri. Við getum svo séð um gluggaþvottinn fyrir þig þegar allt er orðið hreint.

Sérfræðingar Hreint eru snillingar í að þrífa baðherbergi. Leitaðu ráða hjá þeim ef þig vantar aðstoð við þrifin í þínu fyrirtæki.

Næsta húsráð: Eldhúsþrif