Fréttir

Húsráð: Satt og sannað?

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. mars 2016

Við hjá Hreint höfum gaman að því að deila með ykkur húsráðum sem létta lífið við þrifin. Enda eru þrif og ræsting okkar ær og kýr. Best er þegar ráðin eru þannig að flestir eiga innihaldsefnin og þau eru bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Slík húsráð njóta sífellt meiri vinsælda og margar snappstjörnur deila ráðum í gríð og erg. Nýjustu ráðin sem hafa farið á flug eru um gagnsemi kóks og tómatsósu í þrifum. En virka þessi ráð? Hvað segja vísindin okkur?

Hvítvín hreinsar rauðvín

Eitt frægasta húsráðið sem tengt er matvælum er vitaskuld að þrífa skuli rauðvínsbletti með hvítvíni. Einhverjum gæti nú þótt bruðlið yfirgengilegt en sannleikurinn er sá að ljós vínandi virkar til að deyfa litinn í þeim dekkri. Raunar er það svo að sterkara vín virkar enn betur og því er lang best að skella vodka á blettinn. Hvort fólk tímir því er svo annað mál.

Er hægt að fægja silfur með tómatsósu?

Samfélagsmiðlastjörnur hafa þó ekki bara bent á vínandaráðið heldur hafa þrif með tómatsósu verið sérstaklega vinsæl að undanförnu. Helst er verið að nota tómatsósu til að fægja silfur. Við mælum ekki með því ráðinu. Virka efnið sem hefur þau áhrif að silfrið hreinsast er acetic sýra. Þá sýru þekkjum við Íslendingar betur sem ediksýru. Ólíkt venjulegu borðediki er tómatsósa uppfull af litarefni og sætuefnum sem geta dregið að sér óhreinindi og litað silfrið. Við mælum frekar með því að edik sé notað en tómatsósa.

Á að sturta kóki í klósettið?

Þrifstjörnur hafa líka notað kóla drykki til að þrífa klósett. Í þessu tilviki er það líka sýran sem sér um þrifin – en eftir sitja litarefni auk þess sem ókosturinn við drykkinn er að hann er mjög þunnur og festist því ekki við lagnir eða klósettskálina og því þarf meira af honum til að þrífa en af venjulegum hreingerningarefnum. Við getum því ekki mælt með þessu ráði.

Kartöflur leysa upp ryð

Við hjá Hreint viljum þó ekki skilja við lesendur á neikvæðum nótum og bendum því á eitt húsráð sem við höfum ekki tekið eftir að snappstjörnurnar hafi notað. Kartöflur geta leyst upp ryð. Skerðu kartöfluna í helming og nuddaðu ryðblettinn með kartöflunni. Þú munt sjá að fyrst myndast einskonar leðja en þegar þú þrífur leðjuna af er ryðið á bak og burt eins og fyrir töfra. En þetta eru engir töfrar heldur efnafræði. Ryð myndast þegar járnjón og súrefnisjón bindast saman. Oxal sýran í kartöflunni lokar járnjónunum og þannig er hægt að þvo súrefnisjónin frá.

Næsta húsráð: Þrífa silfrið!