Content

 

Húsráð: Hreinsaðu bakaraofninn með náttúrulegum efnum

Merki Húsráðs

Við könnumst eflaust flest við að hafa frestað því óhóflega lengi að þrífa bakaraofninn. Það er einhvernvegin alltaf eitthvað betra að gera en að sjá til þess að hann sé glansandi fínn. Þegar loksins kemur að því að óhreinindin þurfa að fara grípum við oftar en ekki baneitruð efni til að þrífa óhreinindin. Það er óþarfi.

Það er vissulega hægt að vinna á erfiðu skáninni innan á bakaraofninum með efnum sem eru svo sterk að augnhárin rúllast upp þegar þú spreyjar þeim inn í ofninn. En við hjá Hreint kunnum betri leið. Það eina sem þú þarft að kaupa í búðinni er matarsódi og smá edik. Og eins og við höfum nefnt áður hér er fjölmargt annað sem þú getur þrifið með restinni af edikinu.

Matarsódi og edik virka saman
Aðferðin er í sjálfu sér einföld. Þú þarft um það bil tvo desilítra af madarsóda, sem þú hellir í skál. Bættu nú við nokkrum matskeiðum af vatni og hrærðu. Ekki setja of mikið vatn í upphafi, það er auðvelt að bæta við vatni seinna, en verra að þurfa að bæta við meiri matarsóda. Blandan ætti að vera nægilega þykk til að hægt sé að smyrja úr henni.

Nú þarf að sjálfsögðu að taka allt lauslegt úr bakaraofninum, plötur, ofnskúffu, grind, hitamæli og hvað eina annað sem gæti verið fyrir. Svo er ágætt að fara í góða gúmmíhanska og dreifa einfaldlega úr matarsódaþykkninu innan á ofninn með hendinni. Passaðu að allt yfirborð ofnsins sé þakið með þunnu lagi. Matarsótinn verður brúnleitur þegar þú dreifir honum um ofninn. Það er í fínu lagi.

Nú tekur við bið. Matarsódinn þarf að fá að standa í að minnsta kosti 12 klukkustundir. Væri ekki upplagt að nota tímann til að þrífa ofnskúffuna, grindina og bökunarplöturnar?

Eftir 12 klukkustundir er gott að grípa tusku eða gamalt viskastykki, aðeins rakt, og þurrka blönduna úr ofninum. Notaðu sleikju til að ná blöndunni úr hornum og öðrum stöðum þar sem tuskan nær ekki til.

Matarsódinn freyðir
Settu nú smávegis edik í úðabrúsa og úðaðu inn í ofninn. Passaðu að úða örugglega á allar leifar af matarsóda sem þú sérð. Hann ætti að freyða við þetta. Skolaðu tuskuna eða viskastykkið og farðu aðra umferð yfir ofninn. Ef þörf krefur má úða meira af ediki á erfiða bletti þar til þeir renna af.

Nú er ekkert annað eftir en að setja ofnskúffuna, grindina og allt hitt aftur inn í ofninn og njóta þess að eiga hreinan bakaraofn. Jú. Eitt til viðbótar. Svo þarf að lofa sjálfum sér að geyma það ekki svona lengi aftur að þrífa blessaðan bakaraofninn.

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja