Content

 

HÚSRÁÐ: Edik í þvottavélina

Merki Húsráðs

Við hjá Hreint þreytumst ekki á að dásama ótrúlega eiginleika ediks í þrifum og ræstingum. Við höfum áður skrifað um hve frábært það er til að þrífa allt frá gluggum til salernisskála og til að minnka óþef. Að undanförnu hefur gengið á milli manna grein um eiginleika ediks í þvottum. Við tökum heils hugar undir það sem þar kemur fram.

Edik er með mjög lágt sýrustig sem leysir upp óhreinindi en er nógu milt til að valda engum ertingi eða skemmdum á fatnaði eða yfirborði. Það er náttúrulegur lyktareyðir og því hentar það einstaklega vel til að eyða lykt úr íþróttafötum sem oft vilja taka mikla lykt í sig. Edik er ekki ilmgjafi heldur dregur það lyktina í sig, eyðir lyktinni, og edik lyktin hverfur svo eins og dögg fyrir sólu um leið og það þornar.

Margir eru farnir að nota edik í stað mýkingarefnis. Það er skynsamlegt því sýrustigið mýkir fatnaðinn en fer betur með hann en venjulegt mýkingarefni. Það er líka mun umhverfisvænna – hvort sem litið er til framleiðslu eða losunar út í náttúruna.

Eins og áður sagði leysir edik upp óhreinindi og því er það einstaklega gott til blettalosunar. Ef fatnaðurinn er blettóttur er ráð að setja hann í bleyti yfir nótt í heitu vatni og hálfum bolla af ediki.

Edik er afrafmagnandi og því mun það hjálpa til við að halda kuski og hárum úr fatnaði sem vanalega dregur mikið að sér.

Ef það er eins farið með þig og okkur að þú vilt vita meira um undraefnið edik skaltu endilega líta yfir húsráðin okkar undir Fróðleikur hér á Hreint.is – þau eru hreinn fjársjóður ráða og hugmynda um hvernig hægt er að nota náttúruleg efni á borð við edik og matarsóda til þrifa á heimilinu.

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja